Hreyfing - Næring - Sköpun - Leikur Hafa samband

Tónlist í Heilsuleikskólanum Heiðarsel

Gildi og tilgangur tónlistarkennslu er að nemendur kynnist tónlist á jákvæðan hátt í gegnum leik og gleði. Tónlistin er hluti af námi barnanna í leikskólanum þar sem hún tengist öðrum áhersluþáttum starfsins eins og læsi, stærðfræði og hreyfingu.

Börnin eru í aldursskiptum hópum í tónlist einu sinni í viku. Byrjað er á einföldum æfingum og síðan er byggt ofaná eftir þroska og getu hvers og eins.

Í tónlistartímunum er lögð áhersla á að syngja, spila á einföld hljóðfæri, klappa takt og hreyfa sig í takt við tónlist. Kennd eru hugtök eins og púls-hrynur= taktur, hratt- hægt, göngu-hlaupataktur, langt-stutt=langur/stuttur tónn, sterkt- veikt=f/p, háir og bjartir tónar, djúpir og dimmir tónar.

Kynning er á tónverkum eins og; Pétur og úlfurinn, Karnival dýranna þar sem notaðar eru grímur, Maxi mús, Fantasía Disneys, Hnotubrjóturinn og Svanavatnið.  Einnig er hlustun mikilvægur þáttur í starfinu þar sem hlustað er á ýmsar gerðir tónlistar eins og óperur/rokk óperur og söngleiki.

Rannsóknir hafa sýnt að tónlist tengist öllum stöðvum heilans og örvar margþætta virkni hans. Iðkun tónlistar hefur því mikið uppeldislegt gildi og þýðingu fyrir þroska og námsgetur barna frá unga aldri. Hugurinn, höndin, hjartað og samhæfingin snertir þar af leiðandi öll þroskasvið barns og leiðir af sér vellíðunartilfinningu.